What is RIE parenting?
I would not be the parent I am today if it weren’t for RIE and respectful parenting. So grateful am I that I found this approach, this mindset, this way of “being” that I often tell people this approach will change their life forever. I know it certainly did that for me.
RIE is a whole world of principals, concepts and approaches. Some we might resonate with straight away while others require a change of mindset and a bit of an effort to grasp to be able to apply in our daily life.
Icelandic:
Hvað er RIE?
RIE (borið fram ‘Ræ’) stendur fyrir “Resources for Infant Educarers” en er oft þekkt sem Respectful Parenting eða Mindful Parenting en ég hef ákveðið að notast við ‘Virðingarríkt Tengslauppeldi’ sem íslenska þýðingu á hugmyndafræðinni.
Upphafskona stefnunnar var ungbarnasérfræðingurinn Magda Gerber en hún stofnaði RIE árið 1978 eftir að hafa unnið lengi með barnalækninum dr. Emmi Pikler í Ungverjalandi. Magda Gerber dó árið 2007 en RIE vex og vex og hefur fengið gríðarlega mikla umfjöllum og athygli síðustu ár.
Ein helsta talskona RIE í dag er Janet Lansbury en hún hefur skrifað frábærar bækur og heldur úti vinsælu fræðslu-bloggi en það var í gegnum bloggið hennar sem ég kynnist fyrst hugmyndum um virðingu og meðvitund í uppeldi enda hefur Janet Lansbury verið sú rödd sem hefur náð að boða boðskap RIE hvað víðast síðustu ár.
Virðingarríkt tengslauppeldi er heill heimur út af fyrir sig en í grófum dráttum má segja að nálgunin sé byggð á þremur grunnhugtökum; virðingu, trausti og tengingu.
Virðing
Eins og nafnið felur í sér er virðing gríðarlega mikilvægur partur af virðingarríku tengslauppeldi. Grunnhugmyndin er sú að ungabörn fæðast í heiminn sem heilir einstaklingar sem eru tilbúnir til að taka fullan þátt í lífinu.
Magda Gerber fjallaði um mikilvægi þess að samskipti okkar við barnið endurspegli þá virðingu sem barnið á rétt á:
,,Við berum ekki einungis virðingu fyrir barninu heldur sýnum við virðingu okkar í verki í hvert sinn sem við eigum í samskiptum við það. Að bera virðingu fyrir barni felur í sér að líta á hvert einasta barn sem heilan einstakling frá fyrsta degi en ekki sem einskonar fylgihlut” (Gerber 1998).
Fyrsta skrefið í átt að því að tileinka sér RIE hugmyndafræðina er að setja sig í spor ungabarnsins og reyna eftir fremsta megni að sjá heiminn með augum barnsins. Með það í huga að fæddur sé glænýr einstaklingur sem er í fyrsta skipti að upplifa heiminn og allt sem hann hefur upp á að bjóða er foreldrum og umönnunaraðilum boðið að hægja á sér, minnka áreiti og leyfa barninu að þroskast og dafna á sínum hraða.
Það þykir góð æfing að ímynda sér að maður sjálfur þurfi skyndilega aðstoð við alla umönnun, til dæmis vegna aldurs, og að geta manns til að hreyfa sig eða tjá sig eðlilega sé verulega skert.
Hvernig myndum við vilja að hugsað væri um okkur?
Þegar við setjum upp þessi gleraugu sjáum við fljótt að flest okkar myndum til dæmis vilja vera látin vita áður en við værum færð til eða tekin upp, klædd í og úr fötum eða færð á milli einstaklinga. Við myndum upplifa óöryggi og vanvirðingu ef okkur væri ekki sagt hvað væri í þann mund að gerast eða hvert við værum að fara. Flest myndum við líklega vilja að umönnunaraðili legði sig fram við að vera í tengingu við okkur, meðvituð um okkar ástand og að við fengjum að taka eins mikinn þátt og mögulegt væri í daglegri umönnun.
Frá fyrsta degi tölum við eðlilega við börnin og sleppum öllu leikriti eða “baby-gymmík”, erum einlæg, örugg og róleg. Magnaðir hlutir gerast þegar við stoppum og fylgjumst með börnunum okkar og hlustum eftir því hvernig þau tjá sig – þannig kynnumst við þeim líka svo vel!
Mikilvægi leiks
Við berum líka mikla virðingu fyrir mikilvægi leiks, og mikilvægi þess að barn fái að upplifa og uppgötva umhverfi sitt á sínum eigin forsendum. Við leyfum barni að stjórna því hvað það leikur sér með, hvernig það leikur sér og pössum okkur á því að trufla ekki þegar það er niðursokkið í leik. Við styðjum barn til þess að leika sér sjálfstætt, treystum þeirra einstöku getu til þess að læra á lífið í gegnum leik, skiljum að þau eru frumkvöðlar að eðlisfari og gefum þeim frelsi og tíma til þess að virkja og kanna það sem þau þurfa hverju sinni.
Traust
Við treystum barni til þess að þroska hreyfigetu sína á sínum hraða með sínum leiðum og “hjálpum” eða “kennum” þeim t.d. ekki að snúa sér, setjast eða labba. Við setjum upp öruggt og nærandi umhverfi fyrir barnið þar sem það fær að prufa sig áfram. Við forðumst að segja “passaðu þig!” of mikið og treystum barni til þess að spreyta sig sjálft á nýjum “verkefnum” (eins og að púsla, drekka úr glasi, hneppa tölu) en með því að leyfa þeim að gera hlutina sjálf en stökkva ekki til og hjálpa börnum um leið og verkefni verður krefjandi sýnum við þeim að við treystum þeim og trúum á þau.
Börn eru alltaf góð
Við treystum því líka að börn eru alltaf góð. Í grunninn vilja öll börn standa sig vel, vera í samvinnu við okkur og vera partur af heildinni. Það eru hins vegar ýmis atriði sem geta gert þeim erfitt fyrir eins og þroski, umhverfið sem barnið býr í og samskipti foreldra og umönnunaraðila.
Hegðun er tjáning og við trúum því að þegar börn hegða sér á óæskilegan hátt sé það vegna þess þau eiga einfaldlega erfitt með sig og vantar aðstoð eða hjálp frá okkur.
,,Í minni veröld eru engin óþæg börn, eingöngu áhrifagjarnt ungt fólk að glíma við tilfinningar og hvatir, að reyna að tjá tilfinningar sínar og þarfir með þeim leiðum sem þau þekkja” (Lansbury, J. 2014).
Tenging
Við setjum börnum skýr mörk með samkennd, skilning, ró og öryggi. Við reynum að standa alltaf við mörkin sem við setjum. Við viðurkennum tilfinningar þeirra þegar þau eru ósátt eða eiga erfitt og að síðustu erum við ekki hrædd við viðbrögðin sem geta komið upp þegar við setjum þeim mörk. Með þessu móti varðveitum við sterk tengsl, búum til æskilegt umhverfi til lærdóms og hjálpum þeim að æfa sig að sætta sig við mörkin sem þeim eru sett og byggja þannig upp sjálfsaga.
Við setjum tilfinningum aldrei mörk en við setjum hegðun skýr mörk.
Sjálfsvinnan er mikilvægasta vinnan
Virðingarríkt tengslauppeldi fær okkur til að líta inn á við, vera meðvituð um okkar eigin tilfinningar og einnig það sem kallar á neikvæð viðbrögð eða hugsanir hjá okkur (e. trigger). Þessi nálgum býður okkur að kafa dýpra og reyna að skilja hvar viðbrögð okkar eiga upptök sín. Að brjóta gömul munstur sem styðja ekki við heilbrigðu samskiptin sem við viljum tileinka okkur í uppeldi barnanna okkar og byrjum að endurhugsa þannig ýmislegt sem áður voru ómeðvitaðar hugsanir og skoðanir. Í þessu meðvitaða ferli umbreytum við hugsununum um börnin okkar og hegðun þeirra, afneitum dæmandi hugsunum, æfum okkur í því að sjá lengra en hegðun sem kemur upp og skoða hvað gæti legið að baki þegar börnin okkar eiga erfitt með sig.
Helsta markmið RIE að mínu mati er að byggja upp heilbrigt samband milli foreldris og barns, samband þar sem báðir aðilar geta notið sín – samband sem byggist á djúpum tengslum, trausti og virðingu.
“Gerum minna, slökum á, fylgjumst með og njótum barnanna okkar akkúrat eins og þau eru, akkúrat í dag”
– Kristín Maríella
Comments
comments for this post are closed